Námið veitir sérhæfðan þekkingargrunn og færni á sviði heilabilunar með áherslu á persónumiðaða þjónustu og ráðgjöf fyrir fólk með heilabilun og aðstandendur þeirra.

Hjúkrunarfræðideild Háskólans á Akureyri leiðir námið en það er kennt í samstarfi við félagsráðgjafadeild Háskóla Íslands.

Námið er þverfaglegt og veitir viðbótardiplómu á meistarastigi í heilbrigðisvísindum.

Er námið fyrir þig?

  • Langar þig að öðlast sérhæfingu í málefnum fólks með heilabilun?
  • Vilt þú sérhæfa þig í ráðgjöf?
  • Viltu auka víðsýni þína?
  • Býrð þú yfir sjálfsaga, þolinmæði og samkennd?

Áherslur námsins

Námið er kennt á 2 árum, 30 ECTS hvort ár, og byggist upp á 8 skyldunámskeiðum og einu valnámskeiði.

Markmið námsins er að brautskráðir stúdentar verði skapandi fagmenn og gagnrýnir greinendur. Þeir verði óhræddir við breytingar til framfara með víðsýni að leiðarljósi. Þetta eru rauðu þræðirnir í uppbyggingu og innihaldi námskeiða, sem og í kennsluháttum og námsmati.

Þú getur skoðað skipulag náms neðar á vefnum og á Uglu, kennsluvef háskólans.

Fyrirkomulag námsins

Námið er kennt í sveigjanlegu fjarnámi og skipulagt þannig að mögulegt er að stunda vinnu samhliða því. Í námsmati er áhersla á verkefnavinnu sem tengd er vettvangi.
Gert er ráð fyrir að nemendur mæti í allar staðlotur. Umsjónarkennurum námskeiða er frjálst að setja kröfu um mætingu í ákveðna lotu eða allar (2-3) loturnar í viðkomandi námskeiði. Þessar kröfur geta verið mismunandi á milli námskeiða.

Mæting miðar við að mæta á staðinn eða með samþykki umsjónarkennara viðkomandi námskeiðs að mæta í gegnum fjærveru eða Zoom. Athugið að stúdent þarf að fá þjálfun hjá Kennslumiðstöð HA til að geta nýtt sér fjærveru til að mæta á námskeið.

*Ef stúdent getur af heilsufarsástæðum ekki mætt í lotu verður viðkomandi að hafa samband fyrir fram við umsjónarkennara námskeiðs. Umsjónarkennari ákvarðar hvaða viðbótarverkefni viðkomandi þarf að gera í stað mætingarinnar til að standast lágmarkskröfur námskeiðs.

Möguleikar að námi loknu

Markmið námsins er að veita þér tækifæri til að efla þig á sviði heilabilunar. Gert er ráð fyrir að útskrifaðir stúdentar fari í ráðgjafa- og stjórnunarstörf innan heilbrigðis- og velferðarkerfisins eða starfi sjálfstætt. Starfsvettvangur getur verið innan heilbrigðisumdæma, minnismóttaka, heilsugæslu, heimahjúkrunar, félagslegrar heimaþjónustu, dagþjálfunar og hjúkrunarheimila.

Mögulegt er að fá hluta af diplómanáminu metið inn í meistaranám í samræmi við önnur inntökuskilyrði.

Inntökuskilyrði

Umsækjendur um námið þurfa að hafa lokið bakkalárgáðu (BS/BA) innan heilbrigðisvísinda, félagsráðgjafar, félagsfræði, sálfræði eða þroskaþjálfunar sem eru að lágmarki 180 ECTS einingar.

Forgangsröðun í námið vegna aðsóknar umfram leyfilegan nemendafjölda mun fara fram eftir matslíkani sem byggir á mati á starfsreynslu, fjölda námseininga og viðbótarnáms, einkunna (7,00 er lágmarkseinkunn), kyni og gæðum kynningarbréfs.

Mikilvægt er að öll umbeðin gögn svo sem staðfest afrit af prófskírteinum, ferilskrá, kynningarbréf og starfsvottorð fylgi með umsókn.

Umsagnir

Námsleiðin er ný við HA og jafnframt á landsvísu og er fyrst og fremst hugsuð til að bæta heilbrigðis- og velferðarþjónustu fyrir einstaklinga sem greinst hafa með heilabilun og ráðgjöf til fjölskyldna þeirra. Mikil þörf er á aukinni þjónustu við þennan hóp fólks sem fer ört vaxandi en ráðgjafar í málefnum fólks með heilabilun geta gegnt lykilhlutverki hvað það varðar. Það er sérlega ánægjulegt að hafa fengið að taka þátt í að byggja upp þessa nýju námsleið sem er frábær viðbót við framhaldsnám í heilbrigðisvísindum við háskólann. Megininntak námsins er sérhæfing á sviði heilabilunar með áherslu á persónumiðaða, heildræna og samþætta ráðgjöf og þjónustu við fólk með heilabilun og aðstandendur þeirra auk ráðgjafar og fræðslu til faghópa, almennings og stofnana. 

Kristín Þórarinsdóttir
dósent við HA hefur faglega umsjón með námsleiðinni